Vísindavefurinn: Hversu há var Marshall-aðstoðin sem Ísland fékk eftir seinni heimsstyrjöld?
Spurning

Hversu há var Marshall-aðstoðin sem Ísland fékk eftir seinni heimsstyrjöld?

Spyrjandi

Daði Halldórsson
Bjarni Guðjónsson

Svar

Í töflunni hér að neðan má sjá þá upphæð sem Bandaríkin vörðu í Marshall-aðstoðina á árunum 1948-53, og hversu mikið hvert land fékk í sinn hlut. Alls tóku 16 lönd við fjármunum en hér eru Belgía og Lúxemborg talin saman. Tölurnar eru fengnar af heimasíðu Marshall-samtakanna, George C. Marshall Foundation:

Marshall-aðstoðin í milljónum Bandaríkjadala
LandÍ heildStyrkirLán
Bretland3.189,82.805,0384,8
Frakkland2.713,62.488,0225,6
Ítalía1.508,81.413,295,6
Vestur-Þýskaland1.390,61.173,7216,9
Holland1.083,5916,8166,7
Grikkland706,7706,7 
Austurríki677,8677,8 
Belgía og Lúxemborg559,3491,368,0
Danmörk273,0239,733,3
Noregur255,3216,139,2
Tyrkland225,1140,185,0
Írland147,519,3128,2
Svíþjóð107,386,920,4
Portúgal51,215,136,1
Ísland29,324,05,3
Svæðisbundin aðstoð407,0407,0 
Samtals13.325,811.820,71.505,1

Marshall-aðstoðin er kennd við þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, George C. Marshall. Í ræðu sem hann hélt 5. júní 1947 bauð hann öllum Evrópuríkjum upp á aðstoð Bandaríkjanna við enduruppbyggingu eftir seinni heimsstyrjöldina. Um var að ræða umtalsverða fjárhagsaðstoð sem að einhverju leyti yrði í lánsformi, en langmest í formi styrkja sem næðu yfir fjögur ár.

Bandaríkjamenn sáu hag sinn í því að styrkja lýðræði og markaðskerfi Evrópuríkja, auk þess sem stjórnmálaleg áhrif þeirra yrðu tryggð. Sovétmönnum var illa við hina stjórnmálalegu hlið Marshall-aðstoðarinnar og þeir afþökkuðu tilboðið. Í kjölfarið fylgdu þjóðir á áhrifasvæði þeirra í Austur-Evrópu sem seinna mynduðu Austantjaldsblokkina. Eftir stóðu 16 lönd sem tóku tilboði Marshalls, í Vestur- og Suður-Evrópu, og gerðu með sér áætlun, svonefnda Viðreisnaráætlun Evrópu, árið 1947. Fjárhagsaðstoðin hófst ári síðar og stóð til 1953.

Í hlut Íslands komu 29,3 milljónir Bandaríkjadala, þar af 24 milljónir í beinan styrk. Heildarfjárhæð aðstoðarinnar var 13.325,8 milljónir dala. Hlutur Íslendinga var því rúm 0,2%. Danir fengu í sinn hlut um nífalda upphæð á við Íslendinga, eða 273 milljónir dala. Umdeilanlegt er hvort hlutur Íslendinga hafi verið of rausnarlegur miðað við það að herseta Breta og Bandaríkjamanna hafði fremur góð áhrif á efnahagslífið en slæm en ekki verður lagður dómur á það hér.

Heimild og mynd:
Hér er svarað eftirtöldum spurningum:
  • Hversu há var Marshall-stuðningsupphæðin, sem Ísland fékk eftir seinni heimsstyrjöld? Var hún mjög há í samanburði við til dæmis Danmörku? (Daði Halldórsson)
  • Hversu miklum fjármunum veittu Bandaríkjamenn í Marshall-aðstoðina? Hversu háar upphæðir fékk hver þjóð? (Bjarni Guðjónsson)

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.5.2003

Tilvísun

Unnar Árnason. „Hversu há var Marshall-aðstoðin sem Ísland fékk eftir seinni heimsstyrjöld?“. Vísindavefurinn 13.5.2003. http://visindavefur.is/?id=3411. (Skoðað 25.5.2013).

Höfundur

Unnar Árnasonbókmenntafræðingur



Leit


Vísindadagatalið

Kristján Eldjárn
(1916-1982)
( Fyrri Næsti )

Fornleifafræðingur og síðar forseti, skrifaði m.a. bókina Kuml og haugfé 1957 og átti mikinn þátt í að efla áhuga á fornleifafræði hér á landi.
Lesa meira...

Aðalstyrktaraðili

Happdrætti Háskólans