Stjórnarráðið | Leikskólar Hoppa yfir valmynd

Leikskólar

Á leikskólaaldri þroskast einstaklingurinn hvað mest á lífsleiðinni. Í leikskóla er lagður grunnur að menntun barna sem önnur skólastig byggja ofan á.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu, ætlaður börnum undir skólaskyldualdri. Mennta- og barnamálaráðuneyti mótar uppeldisstefnu leikskóla í aðalnámskrá en sérhver leikskóli á sjálfur að skipuleggja starfsemi sína og gera eigin áætlanir sem byggja á markmiðum laga um leikskóla og aðalnámskrá.

Í leikskólum á velferð og hagur barna að vera leiðarljós í öllu starfi. Veita á börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla á að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla eiga að mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar. 

Ábyrgð sveitarfélaga

Sveitarfélögin bera meginábyrgð á skólahaldi og framkvæmd leikskólalaga. Bygging og rekstur leikskóla er í umsjón sveitarstjórna sem er skylt að hafa forystu um að tryggja börnum dvöl á leikskóla. Leikskólar skuli þannig byggðir og reknir að þeir geti jafn vel sinnt og uppfyllt þarfir fatlaðra sem ófatlaðra barna. Upplýsingar um leikskóla eru á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Nemendur með sérþarfir

Börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, að mati viðurkenndra greiningaraðila, eiga rétt á slíkri þjónustu innan leikskólans. Nánar er kveðið á um þetta í reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum.

Mat á skólastarfi

Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati á leik- grunn- og framhaldsskólum fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytis. Lagt er mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi viðmiðum sem meðal annars byggja á lögum, reglugerðum og aðalnámskrám. Um innra mat gildir að hver leikskóli á að meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfsins og sveitarfélögin eiga að fylgja því eftir þannig að það leiði til umbóta í skólastarfinu.

Menntastefna

Menntastefna stjórnvalda á hverjum tíma birtist annars vegar í lögum og hins vegar í námskrám. Þá móta ráðherrar áherslur í menntamálum með stefnum.

Námskrá

Aðalnámskrá leikskóla er rammi um skólastarfið og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún nemendum, foreldrum þeirra og öðrum upplýsingar um tilgang og starfsemi leikskóla.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira